Andri Björn Gunnarsson stofnaði fyrirtækið Hárækt fyrir um það bil 2 árum síðan, en nú í desember hóf fyrirtækið loks ræktun og sölu á vörum fyrirtækisins, sem seldar eru undir vörumerkinu Vaxa í verslanir og á veitingamarkað. Hugmyndin kom til í lok 2016, Þegar Andri flutti heim til íslands eftir að hafa verið búsettur og starfað í Sviss og London í tæp 15 ár.

„Ég hafði verið svona með gestsaugað á Íslandi í nokkur ár, og hefur alltaf langað að stofna mitt eigið fyrirtæki með það fyrir augum að nýta sérstöðu Íslands í orkumálum.“ Andri kynntist svokölluðum lóðréttum landbúnaði (e. vertical farming) í Þýskalandi, og hefur verið að vinna að því að koma upp slíkri starfsemi frá því hann kom heim til Íslands og stofnaði félagið.

„Síðan þá er þetta búið að vera langt ferli að koma þessu af hugmyndastiginu í framkvæmd,“ en ræktunin er ein sú umfangsmesta sinnar tegundar í heiminum. „Þessi geiri er líklega kominn lengst í Bandaríkjunum, og nokkur stærstu félögin þar hafa fengið töluvert fjármagn frá þekktum fjárfestum á borð við Google, Goldman Sachs og Jeff Bezos.“

Fullkominn aðskilnaður frá ytra umhverfi

Lóðréttur landbúnaður er, í stuttu máli, innandyraræktun í fullkomlega stýrðu umhverfi, þar sem ekki er notast við neitt sólarljós, og ræktað er upp á við í hillum, en þaðan kemur „lóðrétti“ hlutinn. „Þetta snýst í raun um að nýta landsvæði og önnur aðföng eins vel og hægt er,“ segir Andri. Sjálfvirkni er mikið keppikefli í lóðréttum landbúnaði, enda stuðlar hún að nákvæmni og hagkvæmni.

Í raun má segja að hugmyndin sé næsta skref í þróun gróðurhúsa. „Aðalmunurinn er sá að þú stýrir umhverfinu fullkomlega. Þú ert með fullkomna loftslagsstýringu, ljósauppskrift, og sjálfvirka vökvun. Þannig býrðu til kjöraðstæður fyrir plöntuna, sem þýðir að þú ert algerlega óháður veðri, árstíðum, sjúkdómum og öðru sem kannski er algengt úti á akri.“

„Gróðurhús nota náttúrulega sólarljós, svo ræktunin þar verður fyrir áhrifum af sveiflum í því.“ Loftinu sé vissulega stýrt, en sú stýring felist oftast í því að opna og loka gluggum eftir veðri og öðru, sem aldrei verði jafn nákvæmt, samhæft og og endurtakanlegt og sú fullkomna stýring sem í lóðréttum landbúnaði felist. „Þetta er bara skrefinu lengra, þar sem þú ert bara með akkúrat fyrirfram ákveðið hitastig, rakastig og ljós niður á mínútuna. Nákvæmlega eins, alla daga.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Rekstur tveggja hótela hefur verið sett í söluferli því brýnt sé að verða hluti af stærri heild.
  • Hætt hefur verið við byggingu áætlaðs hótels og verða í staðinn reistar litlar íbúðir.
  • Rætt er við forstjóra Icelandair en tap félagsins var meira en þó hafði verið búist við.
  • Sigurgeir Jónsson fjárfestir er í ítarlegu viðtali.
  • Skoðað er hve mikil fjárfesting er framundan í innviðauppbyggingu í landinu.
  • Talsverðar breytingar eru í rekstri tuttugu ára gamals upplýsingatæknifyrirtækis.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um endaleysu Klaustursins.
  • Óðinn skrifar um Ítalíu og evrusvæðið.