„Nei ég hef ekki greitt skatta hér, nema jú að sjálfsögðu náttúrulega virðisaukaskatt og þá skatta og það sem maður er að neyta hér en ég hef ekki verið að vinna hér,“ segir Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna, í samtali við fréttastofu RÚV. Í hádegisfréttum kom fram að hann hafi haft lögheimili í Tékklandi síðastliðin þrjú ár þrátt fyrir að hafa búið hér á landi á sama tíma.

Guðmundur komst að því í gær að hann væri ekki á kjörskrá þar sem hann hafi flutt lögheimili sitt of seint hingað og því ekki kjörgengur til Alþingis í þingkosningum síðar í mánuðinum. Hann sagði í samtali við fjölmiðla í gær vera að skoða málið og kanna hvort hann geti kært sig inn á kjörskrá. Fréttastofa RÚV sagði í dag Guðmund hafa fengið endanleg svör um að það geti hann ekki og muni Sigurjón Haraldsson rekstrarhagfræðingur taka oddvitasæti flokksins í Suðvesturkjördæmi.

Sigurjón var í fyrsta sæti í Norðvesturkjördæmi og hefur Íris Dröfn Kristjánsdóttir því verið fært upp í fyrsta sæti framboðslistans í hans stað.