Forystumenn ferðaþjónustunnar eru ósáttir við fjárframlög og áherslur ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Benda þeir á að ferðaþjónustan sé sú atvinnugrein sem skili þjóðarbúinu mestum gjaldeyristekjum, eða 275 milljörðum króna í fyrra, en samt sem áður sitji hún eftir. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir ýmislegt sem snerti ferðaþjónustuna í þessu frumvarpi orka tvímælis. Nefnir hún breytingar á skattkerfinu, samgöngumál, framlög til rannsókna, menntamál og framlög til endurbóta á ferðamannastöðum.

Helga segir að ferðaþjónustan hafi verulegar áhyggjur af samgöngumálum, bæði vegagerð og ekki síður fjármagni til rekstur og viðhalds flugvalla. „Framlög til flugvallanna hafa lækkað um 850 milljónir að raunvirði frá árinu 2007. Samkvæmt frumvarpinu núna á að veita um 1.500 milljónir til þessara mála og það dugar varla fyrir rekstri flugvallanna, hvað þá endurbóta og viðhalds. Við höfum stórkostlegar áhyggjur af því að þetta endi með lokun einhverra flugvalla því miðað við stöðuna mun eitthvað gefa eftir.“