Mikil umræða hefur verið um hver þolmörk landsins eru fyrir fjölgun ferðamanna. Að sögn Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, er mikilvægast að hugsa til þess að ná jafnvægi í streymi ferðamanna yfir árið og í kringum landið til að starfsemin geti alls staðar skilað góðri arðsemi til langs tíma.

„Hvað varðar þolmörkin þá erum við ekki komin að þeim í fjölda ferðamanna. Hins vegar eru einstakir staðir á einstökum tímum ansi fjölmennir, en það á að líta á þá þróun sem tækifæri en ekki vandamál. Það eru tækifæri í að finna nýja segla fyrir ferðamenn, að búa til nýjar vörur. Þetta snýst fyrst og fremst um skipulag og almennilega stefnumörkun sem stjórnvöld þurfa að sjálfsögðu að leiða í samvinnu við aðra,“ segir Helga.

Fjárlög næsta árs voru kynnt í fyrradag og er með þeim gert ráð fyrir töluverðum breytingum á lögum um virðisaukaskatt. Að sögn Helgu hafa SAF lengi talað fyrir því að einfalda regluverkið á íslenskri ferðaþjónustu og þar með talið virðisaukaskattinn.

„Við erum að skoða þetta núna gaumgæfilega en það sem slær mann strax er að ferðaþjónustan er að selja sínar vörur langt fram í tímann þannig að það er áhyggjuefni hversu fljótt breytingarnar myndu taka gildi. En við þurfum að skoða þetta nánar,“ segir Helga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .