*

fimmtudagur, 13. desember 2018
Fólk 10. desember 2017 19:30

Hefur búið í sex löndum

Steinunn Kristín Þórðardóttir er nýr stjórnarmaður í Arion banka fyrir Attestor Capital.

Höskuldur Marselíusarson
Haraldur Guðjónsson

Attestor Capital tilnefndi Steinunni Kristínu Þórðardóttur í stjórn Arion banka á dögunum. „Þeir heyrðu af mér og báðu mig um að koma á fund, svona eru tilviljanirnar oft í lífinu,“ segir Steinunn sem líst vel á nýja hlutverkið „Ég kem inn sem almennur stjórnarmaður en hlutverk mitt byggir á reynslu minni, bæði almennri rekstrarreynslu innan banka og þekkingu á lánveitingum.“ 

Steinunn Kristín býr í Noregi ásamt grískættuðum eiginmanni sínum, Antoni Koumouridis, en hann starfar sem skurðlæknir í Osló, og þremur börnum þeirra, sem eru níu, sex og fjöggura ára. Í dag sinnir hún ýmsum stjórnunar- og félagsstörfum, en þangað til nýlega starfaði hún sem framkvæmdastjóri og forstöðumaður hjá Beringer Finance. Þar á undan rak hún eigið ráðgjafarfyrirtæki í Noregi þar sem hún hefur búið í átta ár. 

„Ég hef verið í stjórnunarstörfum og fyrirtækjafjármögnun ýmiss konar í kringum tuttugu ár, en ég vann lengi hjá Íslandsbanka. Þar var ég í alþjóðalánveitingum, en áður en ég flutti til Noregs bjó ég í rúm fjögur ár í London þar sem ég rak útibú Íslandsbanka,“ segir Steinunn sem segist nálgast það að hafa búið jafn lengi erlendis og heima á Íslandi.

„Ég hef búið í sex löndum yfir ævina, og einnig flutt sex sinnum yfir Atlantshafið. Ég tók bachelor gráðuna í Suður Karólínu, kláraði MBA-námið mitt í Arizona, og svo vann ég í Houston og Frankfurt, en ég kynntist manni mínum í Þýskalandi þar sem hann er fæddur og uppalinn.“ 

Steinunn segir töluverðan menningarmun vera á milli álfanna og einstakra landa innan Evrópu. „Þetta er kannski svolítil einföldun en það er meiri kraftur og meira gert til að efla og ýta undir árangur fólks í menntun og viðskiptum í Bandaríkjunum, sem mætti auka í Evrópu. Ísland hefur hins vegar þróast í að vera svona mitt á milli á síðustu árum og áratug, en það er gott að vera ekki endilega í öfgunum í hvora áttina.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.