*

mánudagur, 23. október 2017
Innlent 5. september 2012 17:44

Hefur ekki fengið að sjá rekstraráætlun Hörpu

Borgarfulltrúinn Kjartan Magnússon vill fá að sjá sundurliðaðar fjárhagsupplýsingar tengdar Hörpu.

Ritstjórn
Tónlistarhúsið Harpa.
Haraldur Guðjónsson

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi málefni tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu og vinnubrögð stjórnar Austurhafnar á fundi borgarstjórnar í gærkvöldi. Hann sagði ákveðna embættismenn borgarinnar hafa staðið í vegi fyrir því að hann fengi að sjá rekstrarúttekt KMPG vegna Hörpu.

Kjartan lét á fundinum m.a. bóka að hann óski eftir því að fá upplýsingar um heildarbyggingarkostnað við Hörpu og tend mannvirki og sundurliðun á áföllnum kostnaði, svo sem vegna lóðakaupa, glerhjúps auk launa og þóknunar til stjórnarmanna Austurhafnar. 

Bókun Kjartans má lesa í heild hér að neðan:

„Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð stjórnar Austurhafnar – TR, sem hefur ítrekað neitað að láta undirrituðum í té úttekt KPMG frá 31. maí sl. um rekstur Hörpu. Jafnvel eftir að mennta- og menningarmálaráðuneytið sendi skýrsluna til fjölmiðla, neitaði stjórnin af afhenda undirrituðum hana. Eftir því sem næst verður komist, studdu þrír fulltrúar Reykjavíkurborgar í stjórninni umrædda ákvörðun. Tveir af þessum stjórnarmönnum heyra beint undir borgarstjóra en hinn þriðji er pólitískur fulltrúi meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins.

Með ólíkindum er að stjórn Austurhafnar - TR, sem er að fullu í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar, skuli kjósa að halda mikilvægum upplýsingum um fjárhag Hörpunnar frá kjörnum fulltrúum. Ekki er síður ámælisvert að stjórnarmenn, skipaðir af Reykjavíkurborg skuli taka fullan þátt í því með þessum hætti að halda umræddum upplýsingum frá kjörnum borgarfulltrúa. 

Fyrirspurnir KM

1.      Hver er heildarbyggingarkostnaður við Hörpu og tengd mannvirki á núverandi verðlagi? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um áfallinn kostnað, s.s. vegna lóðakaupa, jarðvinnu, sjófyllingar, byggingar, glerhjúps, gatnatenginga, torggerðar, lóðafrágangs, bílastæðahúss o.s.frv. Þá er óskað eftir yfirliti yfir þær framkvæmdir, sem eftir eru eða standa yfir og kostnaðaráætlanir vegna þeirra.

2.      Hver er afstaða borgarstjóra til þeirrar ákvörðunar stjórnar Austurhafnar – TR að neita þráfaldlega óskum kjörins borgarfulltrúa um aðgang að úttekt KPMG frá 31. maí sl. um rekstur Hörpu? Kom borgarstjóri eða staðgengill hans með einhverjum hætti að umræddri ákvörðun stjórnar Austurhafnar – TR, t.d. með samráði við fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn fyrirtækisins eða var umrædd ákvörðun borin undir hann með einhverjum hætti áður en hún varð opinber?

3.      Borgarráð Reykjavíkur lagði á það sérstaka áherslu í sameiginlegri bókun 3. nóvember 2011, að ,,strax“ yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga, sem koma að rekstri Hörpu. Með hvaða hætti hefur umræddum tilmælum borgarráðs verið framfylgt, nú þegar rúmir tíu mánuðir eru liðnir frá samþykkt hennar?

4.      Í sömu bókun borgarráðs var óskað eftir því að sérstök úttekt yrði gerð á rekstri Hörpu til að skýr staða lægi fyrir og hægt yrði að meta hvernig verkefnið hefði farið af stað. Jafnframt var óskað eftir því að ekki yrði farið í frekari framkvæmdir við húsið, sem ekki leiddu af sér tryggar viðbótartekjur meðan á úttektinni stæði. a) Af hverju liðu rúmir fimm mánuðir frá því að umrædd tilmæli komu fram í borgarráði þar til vinna hófst við umrædda skýrslu? b) Hvaða verksamningar hafa verið undirritaðir vegna vinnu í eða við Hörpu frá 3. nóvember 2011 og um hvaða fjárhæðir er að ræða?

5.      Óskað er eftir upplýsingum vegna launa, þóknunar og/eða hlunninda til stjórnarmanna í öllum þeim félögum, sem tengjast rekstri Hörpu frá 15. júní 2010. Hér er átt við stjórn Austurhafnar – TR og öll dótturfélög; Portus, Situs, Totus, Ago, Hospes, Custos og Hring. Sé um fleiri félög að ræða er einnig óskað eftir upplýsingum um þau. Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um upphæð launa/þóknunar eftir félögum og einstökum stjórnarmönnum. Sé um aðrar greiðslur að ræða til stjórnarmanna í umræddum félögum, er óskað eftir upplýsingum um þær.“

Stikkorð: Harpa Kjartan Magnússon