Stefán Sigurðsson, forstjóri Fjarskipta móðurfélags Vodafone, hefur ekki miklar áhyggjur af því að dómsmál sem Fjarskipti höfðaði gegn 365 miðlum hafi áhrif á kaup Fjarskipta á 365.

Félagið Fjarskipti hf. hefur höfðað mál gegn 365 miðlum hf. (áður IP fjarskipti ehf.) vegna greiðslu skuldar fyrir veitta þjónustu á tímabilinu maí 2012 til janúar 2013, að fjárhæð 44 milljóna, auk dráttarvaxta. Þetta kemur fram í síðusta árshlutareikningi Fjarskipta.

Aðalmeðferð málsins hefur verið ákveðin og verður þann 17. október 2016. Segir Stefán Sigurðsson, forstjóri Fjarskipta hf., málið vera gamalt mál milli Vodafone og Tals og að það sé í einfaldlega í löngu ferli.

„Það stóð deila um greiðslu á þjónustu milli aðila. Aðilar náðu ekki að semja um þett, því fer þetta sína leið í kerfinu,“ segir Stefán í samtali við Viðskiptablaðið. Hafa 365 og Fjarskipti ekki rætt málið í samhengi við kaupa Fjarskipta á 365.

Einnig tekur Stefán fram að það sé flókið samband aðila á þessum markaði.

Sammála um að vera ósammála

Bendir Stefán á að fyrirtækin hafi verið að keppa á sumum sviðum og á öðrum hafi Vodafone unnið fyrir 365. Hann tekur fram að fyrirtækin séu einfaldlega „sammála um að vera ósammála.“ Málið malli því áfram í sínum farvegi.

„Hver veit nema að aðilar ræði þetta“ segir Stefán að lokum. Eins og er, þá er þetta mál 365 og tekur fram að það gæti jafnvel verið að menn reyni að ná saman - ef þeir nái saman um önnur mál.