Gengi krónu mælt með gengisvísitölunni hefur styrkst um 7,7% frá áramótum til 15. júní. Á tímabilinu hefur gengi íslensku krónunnar gagnvart öllum 13 gjaldmiðlum vísitölunnar. Af þeim fimm gjaldmiðlum sem eru með mest vægi í vísitölunni hefur styrkingin verið mest gagnvart Bandaríkjadal, eða um 11,8%. Á móti evru nemur gengisstyrkingin 5,7%. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans .

Gengisvísitalan hefur verið í lækkunarfasa frá hágildi þann 28. október 2013, lækkunin, sem er til marks um styrkingu krónunnar, nemur 32% miðað við 15. júní sem lokadagsetningu. Það samsvarar um 47% styrkingu gengis krónu. Gengisstyrkingin gagnvart evru á tímabilinu er mun minni á móti Bandaríkjadal eða 18,9%. Gengi krónu gagnvart evru hefur styrkst milli mánaða í 31 skipti á síðustu 43 mánuðum.

Styrkingin krónunnar var mikil, þrátt fyrir veruleg gjaldeyriskaup Seðlabanka Íslands. 18. maí síðastliðinn tilkynnti bankinn um að hann væri hættur reglulegum kaupum á evrum af viðskiptavökum á markaði. Í tilkynningu Seðlabankans kom fram að gjaldeyrisforðinn væri orðinn það stór að regluleg kaup væru orðin óþörf og að þeim yrði hætt frá og með mánudeginum 22. maí. Síðan þá hefur bankinn einu sinni komið inn á markaðinn til að kaupa gjaldeyri samkvæmt tölum Seðlabankans. Heildarkaup bankans á árinu nema 77 milljörðum króna.