*

sunnudagur, 24. febrúar 2019
Innlent 5. nóvember 2010 13:25

Heiðar Már: Erlendir aðilar munu aftur lána til Íslands þó þeir hafi tapað miklu í bankahruninu

Segir ásækni alþjóðlegs fjármagns í einhver tækifæri alltaf vera til staðar

Gísli Freyr Valdórsson

Ljóst er að erlendir aðilar töpuðu mestum fjármunum við hrun íslensku bankanna eins og oft hefur komið fram.

Þetta er meðal annars það sem rætt er í viðtali við Heiðar Má Guðjónsson í Viðskiptablaðinu í gær. Í viðtalinu fjallar Heiðar Már ítarlega um gjaldmiðla og möguleika Íslanda á því að taka upp nýjan gjaldmiðil, hvernig banka- og fjármálakerfið á að vera uppbyggt og margt fleira.

Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og er því birtur hér í fullri lengd.

Í ljósi þess hversu miklu fjármagni erlendir aðilar töpuðu við hrun bankanna er augljósa spurningin sú hvort að erlendir aðilar muni í framtíðinni hafa áhuga á því að lána aftur til Íslands.

„Já,“ svarar Heiðar Már að bragði, „vegna þess að fjármálamarkaðir horfa ekki sérstaklega mikið aftur í tímann heldur aðallega fram í tímann. Svo lengi sem það er kerfi byggt upp á Íslandi sem stenst einhver áföll þá munu menn lána pening til Íslands. Menn eru meira að velta fyrir sér hvar menn verða eftir fimm ár heldur en hvar þeir voru fyrir fimm árum.“

Í þessu samhengi segir Heiðar Már að vert sé að skoða stutt minni markaða. Þannig hafði krónan meðal annars lækkað verulega árið 2001 og aftur árið 2006 eins og flestir muna. Það hafi þó ekki komið í veg fyrir mikla útgáfu jöklabréfa árið 2007 sem rokseldust.

„Ásækni alþjóðlegs fjármagns í einhver tækifæri er alltaf til staðar,“ segir Heiðar Már.

„Það er ekki þannig að það sé allt of lítið af peningum í heiminum, það er nóg  til af peningum í heiminum en það er ekki til nóg af arðbærum verkefnum. Þess vegna þarf að stilla Íslandi upp sem ákjósanlegum fjárfestingakosti, sem það er svo sannarlega.“

Heiðar Már tekur þó undir með blaðamanni þegar hann er spurður hvort ekki þurfi að laga stjórnmálaástandið áður en fjárfestar leiti með fjármagn sitt hingað.

„Nú eru menn að segja að hér eigi að vera norræn velferðarstjórn og að hagkerfið eigi að svipa til Norðurlandanna. Þannig virðast menn núna ætla að reyna að skattleggja sig til velferðar,“ segir Heiðar Már.

„Í Svíþjóð eru menn hins vegar að lækka skatta og einkavæða fyrirtæki, meira að segja orkufyrirtæki. Þá eru Svíar búnir að sýna mjög mikla framför því þeir eru að hverfa frá hinu sósíalíska módeli. Það er verið að leysa úr læðingi krafta sem hafa hingað til verið heftir. Þessi hugmynd, að það sé hægt að skattleggja þjóðir til velsældar, er mikill misskilningur. Það er eins og margir haldi að peningar ríkisins séu ekki teknir af þegnum landsins. Þeir eru bara teknir af almenningi og síðan ætlar ríkið að útdeila þeim með einhverjum hætti.“

Nánar er rætt við Heiðar Má í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu