Heiða Kristín Helgadóttir ætlar ekki að bjóða sig fram til formanns hjá Bjartri framtíð. Tilkynnti hún þetta á Twitter fyrir stundu.

Þar segir hún að breytingarnar sem flokkurinn gangi nú í gegnum snúist ekki um hana eða hennar metnað heldur um það að flokkurinn geti endurvakið áhuga kjósenda. Hún ætli að leggja því verkefni lið með því að taka sæti á Alþingi í haust í fæðingarorlofi Bjartar Ólafsdóttur.

Heiða Kristín segist vilja sjá konu í formannsembætti flokksins.

Tilkynning Heiðu Kristínar:

„Ég hef ákveðið að bjóða mig ekki fram til formanns Bjartrar framtíðar. Breytingarnar sem BF er að ganga í gegnum snúast ekki mig eða minn metnað heldur um það að flokkurinn geti endurvakið áhuga kjósenda og fundið neistann sem þarf til að hrífa aðra með. Metnaður minn liggur í því að leggja því verkefni lið og ég met stöðuna þannig að það verði best gert með því að ég taki sæti á Alþingi í haust í fæðingarorlofi Bjartar Ólafsdóttur og veiti nýrri forystu stuðning til góðra verka. Þar vil ég sjá konu fremsta meðal jafninga.“