Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar hefur tekið við af Bryndísi Haraldsdóttur sem stjórnarformaður Strætó.

Heiða tók sæti sem borgarfulltrúi eftir að Björg Vilhelmsdóttir hætti í stjórnmálum haustið 2015. Eiginmaður hennar er Hrannar B. Arnarsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

Heiða er formaður Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar, varaformaður MS-félagsins, situr í stjórn Norrænu MS-samtakanna og fulltrúaráði evrópsku næringarráðgjafa samtakanna.

Hún hefur starfað sem deildarstjóri yfir eldhúsi og matsölum á Landspítalanum en hún hefur skrifað um mat og næringu, bæði í fjölmiðla og gefið út bækur auk þess að kenna í HÍ.

Heiða lauk MBA námi í Viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík árið 2005, en árið 1999 lauk hún M.Sc. í næringarrekstrarfræði, við Gautaborgarháskóla, en það er meistaranám í stjórnun stóreldhúsa.