Heiðar Guðjónsson fjárfestir var endurkjörinn stjórnarformaður Fjarskipta hf. (Vodafone). Varaformaður stjórnar er Hildur Dungal. Samkvæmt hluthafaskráningu Fjarskipta (Vodafone) er félagið Ursus ehf. sem er í eigu Heiðars fjórði stærsti eigandi í félaginu með 17,4 milljón hluti eða 6,4% eignarhlut. Hann er því stærsti einkafjárfestirinn í Vodafone.

Á aðalfundinum lagði stjórn félagsins til að ekki yrði greiddur út arður til hluthafa vegna rekstrarársins 2016, en vísaði að öðru leyti til ársreiknings hvað varðar ráðstöðfun hagnaðar ársins og breytingu á eigin fé.

Nýverið var tilkynnt um undirritun samnings milli Fjarskipta og 365 um kaup Fjarskipta á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að Fréttablaðinu undanskildu. Kaupverðið er á bilinu 3,1 til 3,3 milljarðar. Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að félögin tvö gætu þurft að bíða í einhverja mánuði eftir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins á kaupunum.

Ef að kaupin ganga í gegn mun Ingibjörg Pálmadóttir, forstjóri og stjórnarformaður 365 miðla, verða þriðji stærsti hluthafinn í Vodafone og mun eiga 8,1% eignarhlut. Í dag er stærsti hluthafi Fjarskipta Gildi - lífeyrissjóður með 13,25% eignarhlut og sá næst stærsti Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 11,82% eignarhlut.

Sjálfkjörið var í aðal- og varastjórn félagsins. Aðalstjórn Fjarskipta (Vodafone) skipa nú:

  • Anna Guðný Aradóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs hjá Samskipum hf.
  • Heiðar Guðjónsson, stjórnarmaður Vodafone og fjárfestir.
  • Hildur Dungal, varaformaður stjórnar Vodafone og lögfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu.
  • Hjörleifur Pálsson, óháður stjórnarmaður.
  • Yngvi Halldórsson, Össuri.