Gjaldþrotabeiðni Heiðars Más Guðjónssonar á hendur Glitni, sem fara átti fyrir héraðsdóm í dag, verður ekki tekin fyrir þar sem búið er að greiða kröfu hans á hendur slitabúinu að fullu. Vísir.is greinir frá þessu.

Heiðar Már keypti kröfur á hendur slitabúinu á síðasta ári og lagði í kjölfarið fram beiðni um gjaldþrotaskipti.

„Það átti að taka hana til meðferðar hjá héraðsdómi í dag og Glitnir og kröfuhafar voru búnir að tefja ferlið í sex mánuði og svo loksins þegar kom að því að taka hana til meðferðar þá beittu þeir úrræði í lögum að utanaðkomandi getur komið inn og borgað upp kröfuna að fullu,“ segir Heiðar í samtali við Vísi.

Heiðar Már segir Rétt lögmannsstofu, sem meðal annars er í eigu Ragnars Aðalsteinssonar, hafa greitt kröfuna upp að fullu samkvæmt ákvæði í lögum. Lögmannsstofan hafi verið vinna fyrir kröfuhafa í Glitni sem eigi um 66% af öllum kröfunum, og hún hafi væntanlega greitt hana upp fyrir hönd þeirra aðila.

Krafan var greidd að fullu, en kröfur á hendur slitabúinu ganga kaupum og sölum í dag á 30 til 40% virði. Heiðar Már segir greiðslurnar fyrir kröfuna koma beint úr vasa erlendra kröfuhafa sem séu að reyna að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir gjaldþrotaskipti föllnu bankanna.