sunnudagur, 14. febrúar 2016
Innlent 15. júlí 2012 14:19

Heiðar Már svarar Seðlabankanum

Segir óheppilegt að peningaglýja sé orðinn atvinnusjúkdómur í Seðlabankanum, banka sem eigi að hafa stöðugt verðlag að markmiði.

Ritstjórn
Heiðar Guðjónsson
Haraldur Guðjónsson

„Því miður virðist því peningaglýja vera orðin atvinnusjúkdómur í Seðlabankanum, sem er vægast sagt óheppilegt í banka sem á að hafa stöðugt verðlag að markmiði.“

Þetta segir Heiðar Már Guðjónsson, hagfræðingur, í grein í helgarblaði Morgunblaðsins þar sem hann svarar hagfræðingum Seðlabankans, Bjarna Geir Einarssyni og Jósef Sigurðssyni. Þeir Bjarni Geir og Jósef höfðu áður sakað Heiðar Má um að reikna vitlaust kaupmátt launa í erlendum myntum, en í samtali við viðskiptablað Morgunblaðsins á fimmtudag sagði Heiðar Már að það væri rangt hjá Seðlabankanum að halda því fram að laun í dag væru sambærileg við laun árið 2006. Af því tilefni sagði Heiðar Má Seðlabankann þjást af því sem í heimi hagfræðinnar er kallað peningaglýja. 

Heiðar Már segir útreikninga hagfræðinga Seðlabankans hins vegar enn vera ranga.

„Þegar reikna á kaupmátt launa á Íslandi yfir í alþjóðlega mynt þarf að taka tillit til verðbólgu í báðum löndum sem verið er að bera saman. Það er gert með því að umreikna, útfrá opinberu gengi Seðlabanka Íslands, krónur yfir í t.d. danskar krónur en taka síðan tillit til verðbólgu í dönsku krónunni yfir tíma,“ segir Heiðar Már í grein sinni.

„Gengisbreytingar ráðast af mismun verðbólgu landa, þannig að ef verðbólgan er að jafnaði 2% hærri á Íslandi en í Danmörku ætti gengi íslensku krónunnar að jafnaði að lækka um 2% gagnvart þeirri dönsku. Þessi umreikningur tekur tillit til þeirrar verðbólgu sem er á Íslandi umfram þá verðbólgu sem er í Danmörku. Þá á eftir að taka tillit til verðbólgu í Danmörku, því kaupmáttur einnar danskrar krónu í dag er t.d. um 20% lægri en um síðustu aldamót. Ef ekki er tekið tillit til verðbólgu í hinni erlendu mynt, kemur fram peningaglýja, þ.e. að halda að verðlag hafi haldist stöðugt í tiltekinni mynt þrátt fyrir verðbólgu.“

Þá skorar Heiðar Már á hagfræðinga Seðlabankans að framkvæma þessa útreikninga og skýra mál sitt betur ellegar að draga orð sín tilbaka. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.