Heiðar Már Guðjónsson, stjórnarformaður Eykon Energy ehf., segir þjónustuskip og þyrlur á vegum kínverska olíuleitarfyrirtækisins CNOOC Ltd. þurfa hafnaraðstöðu á Íslandi fáist leitar- og vinnsluleyfi fyrir fyrirtækin á Drekasvæðinu.

Aðspurður hvar sá staður yrði svarar Heiðar að enn sé það ekki ákveðið en svæði á Norðuraustur- og Austurlandi komi til greina. Hann segir CNOOC einungis þurfa aðstöðu við höfn en ekki afmarkað landsvæði. Þó er verið að undirbúa byggingu á þjónustukjarna sem getur sinnt olíuleitinni að Heiðars sögn. Hann segir að bygging þjónustukjarna yrði að mestu leyti á vegum íslenskra fyrirtækja. „Auðvitað geta erlendir aðilar verið hluthafar í því en það yrðu fyrst og fremst heimamenn sem myndu byggja upp slíka starfsemi,“ segir Heiðar.