Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Sýnar hf., hefur ákveðið að segja sig úr stjórn félagsins. Hjörleifur Pálsson hefur tekið við stjórnarformennsku og Sigríður Vala Halldórsdóttir varastjórnarmaður tekið sæti í stjórn. Samhliða þessum breytingum hefur verið gengið frá ráðningu Heiðars Guðjónssonar sem forstjóra Sýnar hf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sýn.

„Heiðar hefur stýrt stjórnarstörfum undanfarin ár af röggsemi," er haft eftir Hjörleifi Pálssyni, stjórnarformanni Sýnar, í tilkynningunni. „ Það er mikill fengur af því að fá hann til þess að leiða daglegan rekstur félagsins, enda hefur hann yfirgripsmikla þekkingu á starfseminni. Við bjóðum hann því velkominn til starfa á nýjum vettvangi."

Heiðar segist þakklátur fyrir það traust sem honum sé sýnt með þessari ráðningu. „Framundan eru krefjandi verkefni, sem ég hlakka til að leysa af hendi í samstarfi við allt það framúrskarandi fólk sem starfar hjá Sýn hf," er haft eftir Heiðari í tilkynningunni.

Í lok febrúar óskaði Stefán Sigurðsson eftir því að láta af störfum sem forstjóri en hann hafði gegnt stöðunni frá því í maí 2014. Átti hann formlega að hætta þann 1. júní en nú er ljóst að hann mun láta af störfum fyrr og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verður það líklega í næstu viku. Stefán tók á sínum tíma við forstjórastöðunni af Ómari Svavarssyni, sem í dag er forstjóri Securitas.

Þegar Stefán óskaði eftir því að hætta fól stjórn Sýnar Heiðari að annast í auknum mæli skipulag félagsins og átti hann jafnframt að gæta þess að rekstur þess yrði í réttu og góðu horfi fram að ráðningu nýs forstjóra. Líkt og komið hefur fram hefur Heiðar nú verið ráðinn í starfið.