*

miðvikudagur, 21. nóvember 2018
Umhverfismál 24. apríl 2018 16:53

Heiðruðu Plokkið

Borgarstjóri veitti viðurkenningar til nokkurra eldhuga í umhverfismálum við Ráðhús Reykjavíkur.

Ritstjórn
Frá verðlaunaafhendingunni
Aðsend mynd

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, heiðraði í dag nokkra eldhuga í umhverfismálum fyrir utan Ráðhús Reykjavíkur við Reykjavíkurtjörn. Öll hafa þau sýnt frumkvæði að öflugu hreinsunarátaki í borginni.

Plokk á Íslandi, feðgarnir Svavar Hávarðsson og Atli Svavarsson ásamt Örlygi Sigurjónssyni og Björgu Fríði Freyju tóku við viðurkenningum fyrir framlag sitt við hreinsun borgarinnar.  Þess má geta að Örlygur og Björg fengu viðurkenninguna bæði fyrir hreinsun á landi og láði; Örlygur hreinsar rusl um leið og hann fer í kajak ferðir en Björg stundar sjósund og grípur það sem á vegi hennar verður á sundinu.

Dagur sagði að frumkvæði eldhuganna væri smitandi og það væri stórkostlegt hversu mikil fjölgun hefði orðið á þeim sem tína upp rusl í borginni.

Nú stendur yfir evrópsk hreinsunarvika sem Reykjavíkurborg tekur þátt í undir yfirskriftinni Hreinsum saman, tökum þátt og tínum rusl. Borgarstjóri tók þátt í átakinu í dag ásamt starfsfólki Reykjavíkur og hirti upp rusl í nágrenni við Tjörnina.  

Hápunktur vikunnar er laugardaginn 28. apríl en þá geta borgarbúar skráð sig á valin almenningsrými og nágrenni til að tína rusl. Starfsfólk borgarinnar sækir pokana sjái fólk sér ekki fært að koma þeim sjálft til endurvinnslustöðva Sorpu.