Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, hefur ritað færslu á vefsíðu Samtakanna þar sem hún gagnrýnir „ómálefnalegar alhæfingar" Björgólfs Thors Björgólfssonar sem hún segir komi sér á óvart þegar litið sé til mikillar reynslu Björgólfs af viðskiptum.

Í gær var greint frá færslu sem fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson setti inn á vefsíðu sína btb.is. Í færslunni gagnrýnir hann meðal annars að enginn hafi stigið fram í kjölfar bankahrunsins, viðurkennt sinn þátt og axlað ábyrgð.

„Taka má undir með Björgólfi að margt hefði betur mátt fara í aðdraganda hrunsins. Hvað sem því líður, þá er sú sem þetta ritar þeirrar skoðunar að íslenska bankakerfið sogaðist inn í alþjóðlegan efnahagslegan hvirfilbyl og fékk þar engri viðspyrnu við komið. Þó sannanlega sé misjafn sauður í mörgu fé, þá er ósanngjarnt – og raunar rangt – að alhæfa að íslensku bankakerfi hafi verið stýrt af glæpamönnum eða bröskurum. Svo var alls ekki," segir í færslu Heiðrúnar.

Arðgreiðslur 21% af hagnaði

Í færslu Björgólfs skýtur hann föstum skotum á sjávarútveginn og segir að braskið sé enn allt í kringum okkur. „Kvótagreifar setja nýtt met í arðgreiðslum og gefa almenningi fingurinn, á meðan margir þingmenn streitast við að finna leið sem tryggir að útgerðin greiði sem allra minnst fyrir aðgang sinn að þjóðareign. Af hverju rennur arðurinn af auðlindinni ekki í sameiginlegan sjóð þjóðarinnar, eins og arður Norðmanna af olíuvinnslu? Enginn lærdómur þar.“

Heiðrún Lind bendir á að á árunum 2010-2016 voru arðgreiðslur í sjávarútvegi um 21% af hagnaði, til samanburðar voru arðgreiðslur af hagnaði í viðskiptalífinu um 45% af hagnaði. Hún bendir jafnframt á að veiðigjald feli í sér að um þriðjungur af afkomu útgerða rennur í ríkissjóð.

95% kvóta hefur skipt um hendur

„Þá spyr Björgólfur einnig af hverju arðurinn af auðlindinni renni ekki í sjóð landsmanna eins og arðurinn af olíuvinnslu Norðmanna. Auðlindinni, skrifar hann með ákveðnum greini, en þær eru fleiri en ein, þótt sjávarútvegurinn sé eina atvinnugreinin sem greiðir auðlindagjald. Náttúran, orkan og jafnvel fjarskiptatíðnisvið hafa verið skilgreind sem náttúrulegar auðlindir landsins, en ekkert hefur þó gjaldið verið frá fyrirtækjum sem slíkar auðlindir yrkja. Látum það liggja á milli hluta," segir Heiðrún.

Í lok færslunnar bendir hún á að 95% þess kvóta sem upphaflega var úthlutað hefur skipt um hendur í viðskiptum og því séu fáir í sjávarútvegi sem geti borið „greifa" titilinn sem Björgólfur nefnir í pistli sínum.

„Björgólfur hefur að líkindum sjálfur fengið ofgnótt umræðu um eigin viðskipti. Undan henni er ekki hægt að kveinka sér, en þá kröfu hlýtur hann sjálfur að gera að umræðan sé upplýsandi og málefnaleg. Í gagnrýni hans á sjávarútveg, hlýtur að mega gera sömu lágmarkskröfu."