Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir skilaboð sjómanna um að hvergi yrði kvikað frá nokkrum þeim kröfum sem þeir hafi sett fram sem hafi bundið enda á samninga samtakanna við sjómenn.

„Það liggur auðvitað fyrir að ef menn ætla að ná samningum þá verða menn að gera málamiðlanir, samningar nást ekki með skipunum annars samningsaðilans," segir Heiðrún Lind í samtali við Viðskiptablaðið en um framhaldið segir hún:

„Það er í raun ekki annað en að reyna að hugsa í lausnum, en eins og staðan er núna er ekki fram undan að hittast til frekari viðræðna."

Kostar um 2.000 krónur á dag

Þær tvær kröfur sem sjómenn hafa sett á oddinn að ná fram um eru annars vegar varðandi þátttöku í olíukostnaði og hins vegar bætur fyrir afnám sjómannaafsláttarins sem eins og Viðskiptablaðið hefur þegar fjallað um myndi kosta útgerðarmenn um 2.000 krónur á dag á hvern sjómann.

„Varðandi sjómannaafsláttinn þá er það auðvitað krafa sem sjómenn eiga á hendur íslenska ríkinu, því þetta er í formi skattaívilnana sem ríkið tók af sjómönnum," segir Heiðrún Lind.

„Við höfum sagt það að ef þetta er réttlætismál þá munum við að sjálfsögðu styðja sjómenn í þeirri vegferð.

Hins vegar höfum við mætt þessari kröfu að vissu leiti með því að opna á að koma til móts við sjómenn varðandi kostnað við bæði fæði og klæði.

Það er að útgerðin taki í auknum mæli þátt í þeim kostnaði, því það er auðvitað eitt af því sem sjómannaafslátturinn átti að standa undir."

Olíuviðmiðsbreyting verulegir fjármunir

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um þá vilja sjómenn að svokallað olíuviðmið fari úr 70% í 73%. Það þýðir að nú fara 30% af aflaverðmæti fram hjá skiptum og í kostnað við olíu og fleira, en sjómenn vilja að það hlutfall verði einungis 27%.

„Í þessu felst að sjómenn gera kröfu um að fá aukinn hlut, sem samsvarar 4% aflaverðmæta. Í þessu felast verulegir fjármunir og samninganefnd sjómanna hefur enn ekki getað sett fram rök fyrir þessari kröfu. Á meðan engar forsendur styðja kröfuna verður ekki komið til móts við hana,“ segir Heiðrún Lind.

„Þegar við erum að skoða þetta í einhverju heildarsamhengi, þá verður auðvitað að skoða hver séu laun og launatengd gjöld útgerðar, en þá sjáum við að þau eru nú um 36-40%, og allt upp í 50% á frystitogurunum.

Sjómenn eru þar með að fá 36-40% að jafnaði af öllu því verðmæti sem kemur upp úr sjó.

Það er ólíklegt að samningar muni nokkurn tíman takast nema að samningsaðilar sýni gagnkvæmt tillit og komi til móts við kröfur hvors annars.“