Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag, þá hefur Heiðrún Lind Marteinsdóttir héraðsdómslögmaður verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi, SFS. Þetta hefur verið staðfest á heimasíðu samtakanna.

Hefur hún störf á næstu vikum, en ráðningin er gerð að undangengnu ítarlegu valferli. Intellecta hafði umsjón með ráðningarferlinu, en um þrjátíu umsóknir bárust um starfið.

Heiðrún Lind hefur starfað hjá LEX lögmannsstofu óslitið frá því að hún lauk lagaprófi árið 2007, fyrst sem fulltrúi, síðar sem eigandi.

Hefur hún að meginstefnu veitt ráðgjöf á sviði samkeppnis-,verktaka- og útboðsréttar, auk alhliða ráðgjafar til fyrirtækja og sveitarfélaga. Jafnframt hefur hún sinnt málflutningi. Árið 2013 lauk hún prófi í verðbréfaviðskiptum.