Heiðrún Lind Marteinsdóttir verður næsti framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Ekki er búið að ganga endanlega frá ráðningunni, en það verður gert á stjórnarfundi SFS sem nú stendur yfir.

Kolbeinn Árnason hætti sem framkvæmdastjóri samtakanna í byrjun apríl og tók sæti í stjórn LBI, gamla Landsbankans. Frá þeim tíma hefur Jens Garðar Helgason, formaður stjórnar SFS, gegnt stöðu framkvæmdastjóra samtakanna.

Heiðrún Lind er héraðsdómslögmaður og hefur starfað á lögmannsstofunni Lex frá árinu 2006. Heiðrún Lind hefur einkum lagt áherslu á samkeppnisrétt í störfum sínum auk þess sem hún hefur haft umsjón með kennslu í gerð lögfræðilegra álitsgerða á námskeiðum til öflunar réttinda til að vera héraðsdómslögmaður.