Félagið C4 ehf. í eigu Péturs Stefánssonar fjárfestis í Lúxemborg hefur keypt 18 íbúða blokk sem nú er í byggingu milli höfuðstöðva RÚV og Bústaðavegar.

Kaupverðið nemur 778,86 að því er Morgunblaðið greinir frá, en íbúðaverð á svæðinu nemur frá 43,4 milljónum til 99,9 milljóna. Í heildina byggir félagið Skuggi 71 íbúð í fjórum fjölbýlishúsum á svæðinu sem hvert um sig er fimm hæðir.

Nú þegar er búið að selja 47 af íbúðunum en afhenda á íbúðirnar sem C4 keypti í lok október á þessu ári, og skal alls greiða 390 milljónir króna þegar húsin eru orðin fokheld.

Hilmar Ágústsson framkvæmdastjóri Skugga segir að íbúðirnar á svæðinu séu að meðaltali um 90 fermetrar og að flestar þeirra séu tveggja til þriggja herbergja. Segir hann marga hafa komið til að skoða íbúðirnar milli hátíðanna, og það sé merki um mikinn áhuga hve margar íbúðir séu þegar seldar út frá teikningum ókláraðar.