Seðlabanki Íslands birti í gær upplýsingar um heildareignir og skuldir á vefsíðu bankans. Þar kemur fram að heildareignir Seðlabankans hafi hækkað um 21,7 milljarða króna í júlímánuði og nemi þær nú 902,9 milljörðum króna.

Af þessum eignum eru innlendar eignir skráðar á 181,6 milljarða króna, en erlendur eignirnar á 721,3 milljarða. Innlendar eignir lækkuðu um 360 milljónir í mánuðinum og erlendar eignir hækkuðu um 22,1 milljarða í mánuðinum. Heildareignir utan félagsins ESÍ ehf. námu 842,9 milljörðum.

Skuldir seðlabankans, námu 831,8 milljörðum í lok júlí og hækkuðu um tæplega 40 milljarða í mánuðinum. Af þessum skuldum, nema innlendar skuldir 805,6 milljörðum króna en erlendar skuldir 26,3 milljörðum króna. Stofnfé og annað eigið fé Seðlabanka Íslands nam 78,8 milljörðum króna í lok júlí.