Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur skipað nefnd til að endurskoða kerfi barnabóta, vaxtabóta, barnalífeyris og húsnæðisbóta. Horft er til þess að fjárhagslegum stuðningi verði beint í ríkara mæli að lægri tekjuhópum. Þorsteinn segir í samtali við Viðskiptablaðið að nefndinni er fyrst og fremst ætlað til að velta upp mögulegum leiðum til að samræma betur þessi stuðningskerfi sem við erum þegar með, sér í lagi þegar kemur að húsnæði og barneignum.

„Þarna er verið að horfa til gagnrýni sem oft hefur verið beint að þessum kerfum okkar: Að tilgangur þeirra sé óljós. Að tekjuskerðingar séu miklar. Þannig að þegar kemur á að barnabótum að það geti ekki talist að til almenns stuðnings til barneigna sé um að ræða. En á móti hins vegar gangi þær hátt upp tekjustigann þó að um sé að ræða nokkuð lágar fjárhæðir. Svipaða sögu má segja af húsnæðisstuðningnum. Það er ekki samræmi á milli stuðnings eftir uppruna tekna. Þú ert með sérstakan barnalífeyri í örorkulífeyriskerfinu, sem að er mun meiri stuðningur en sambærilegir tekjuhópar á vinnumarkaði hljóta.

Þetta hefur verið talið óheppilegt fyrirkomulag og þess vegna teljum við mikilvægt að setjast yfir og skoða hvaða leiðir eru færar, til að samræma betur þennan stuðning. Þannig að hann beinist meiri að lægstu tekjuhópunum. Að sama skapi að það skipti ekki máli hvort að fólk fái tekjur sínar á vinnumarkaði. Að stuðningur vegna húsnæðis og barneigna sé sambærilegur fyrir sambærilega tekjuhópa,“ segir félagsmálaráðherra.

Koma í veg fyrir fátæktargildrur

Nefndinni er meðal annars ætlað að greina hvar svokallaðar fátæktargildrum myndast. Skal nefndin meðal annars taka mið af ráðleggingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 2015 hvað þeta mál varðar að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu . Hlutverk nefndarinnar er að leggja fram tillögur eða sviðsmyndir um leiðir að þessum markmiðum, nauðsynlegar lagabreytingar sem og að meta kostnað þar um.

„Ég held að þarna þurfi að horfa á samspil stuðningskerfanna okkar. Við vitum það að einstæðir foreldrar á örorkulífeyri verða fyrir verulegu tekjufalli þegar að börnin ná 18 ára aldri og barnastuðningi lýkur, í því getur falist ákveðin fátæktargildra,“ segir Þorsteinn.

Mikilvægt að hafa rétta hvata

„Það þarf að gæta þess að það eru réttir hvatar í þessum kerfum öllum. Til að mynda að það séu réttir hvatar í örorkulífeyriskerfinu: Að fólki sé ekki refsað fyrir að auka atvinnuþátttöku sína. Það er þá reyndar vinna sem er einnig í gangi innan ráðuneytisins, að við getum endurskoðað örorkulífeyriskerfið í þeirri megin hugsun að við getum skipt örorkumati yfir í starfsgetumat og að auka verulega fjármagn til virkniúrræða til að tryggja að það séu réttir hvatar í kerfinu að öllu leyti. Þannig að fólk njóti góðs af aukinni atvinnuþátttöku þegar það á kost til þess og að kerfið styðji það,“ segir Þorsteinn Víglundsson.

Nefndinni er ætlað að gera tillögur að mögulegum leiðum. „Svo myndum við eiga gott og náið samráð við viðkomandi hagsmunaaðila. En ætlunin er að ná saman um umbætur á þessum kerfum,“ segir félags- og jafnréttismálaráðherra að lokum.

Nefndin er þannig skipuð:

  • Ágúst Þór Sigurðsson, fulltrúi velferðarráðuneytisins, formaður
  • Hlynur Hallgrímsson, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins
  • Karl Pétur Jónsson, aðstoðarmaður félags- og jafnréttismálaráðherra
  • Lísa Margrét Sigurðardóttir, fulltrúi velferðarráðuneytisins
  • Margrét Björk Svavarsdóttir, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins
  • Nökkvi Bragason, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins
  • Ólafía B. Rafnsdóttir, aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra
  • Rósa Guðrún Bergþórsdóttir, fulltrúi velferðarráðuneytisins
  • Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, aðstoðarmaður félags- og jafnréttismálaráðherra