Hagstofan gaf út í dag vísitölu heildarlauna, sem miðar að aukinni upplýsingagjöf um íslenskan vinnumarkað. Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar. Vísitala heildarlauna varpar ljósi á þróun launa þar sem að breytingar á samsetningu vinnuafls og vinnutíma hafa áhrif. Útreikningar byggja á samtölu allra staðgreiðsluskyldra launa á greidda vinnustund. Vísitala heildarlauna verður gefin út ársfjórðungslega og eru upplýsingar birtar aftur til ársins 2008.

Á 1. ársfjórðungi 2018 var árshækkun heildarlauna á greidda stund 4,9%. Á almennum vinnumarkaði var hækkunin 4,4% og 5,1% í opinbera geiranum. Árshækkun var nokkuð misjöfn eftir atvinnugreinum eins og sjá má á mynd 1. Í atvinnugreininni vatns- og fráveita var mest hækkun eða 7,6%, og í gisti- og veitingarekstri 6,5%. Minnst hækkun var í fjármálastarfsemi eða 0,2% sem skýrist af háum kaupaukagreiðslum á 1. ársfjórðungi 2017. Árshækkun var á bilinu 4,1% til 6,2% í öðrum atvinnugreinum.

Saman geta þessir tveir mælikvarðar, vísitala heildarlauna og launavísitala, gefið góða heildarmynd sérstaklega þegar miklar breytingar eru á vinnumarkaði. Ársbreytingar vísitölu heildarlauna eru umtalsverðar á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2017 sem meðal annars liggur í kaupaukum sem greiddir voru út á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2017. Þessar greiðslur skýra einnig lága árshækkun milli 1. ársfjórðungs 2018 og 2017 þrátt fyrir að almennar kjarasamningshækkanir í atvinnugreininni á tímabilinu hafi verið um 5%. Hækkanir launavísitölu endurspegla hinsvegar fyrst og fremst breytingu á einingarverði greiddra stunda.

Einnig má benda á að samsetning atvinnugreina með tilliti til hlutdeildar í heildarlaunum á vinnumarkaði hefur mismunandi áhrif á vísitölurnar. Samsetningin hefur breyst mjög á tímabilinu 2008 til 2017. Í launavísitölu er þessari samsetningu haldið óbreyttri innan árs milli árlegra grunnskipta, en samsetningin hefur hinsvegar bein áhrif á vísitölu heildarlauna á hverjum ársfjórðungi.