Leigufélagið Heimavellir hf. hagnaðist um 1.066 milljónir króna á fyrri helmingi þessa árs saman borið við 1.400 milljónir á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins sem birtur var í dag.

Minni hagnaður milli ára skýrist að einhverju leyti af því að fjármagnsgjöld jukust um 655 milljónir króna miðað við sama tímabil í fyrra. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla, að aukin fjármagnsgjöld skýrist að hluta til af fjármögnun á nýjum eignum sem ekki eru enn komnar í rekstur.

Leigutekjur félagsins námu 1.423 milljónum á tímabilinu og ríflega þrefölduðust frá sama tímabili árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu nam 672 milljónum samanborið við 214 milljónir á árinu 2016. Að teknu tilliti til matsbreytingar fjárfestingaeigna nam rekstrarhagnaður tímabilsins 2.525 milljónum samanborið við 2.090 milljónir á fyrstu sex mánuðum síðasta árs.

Eignir félagsins námu 51.373 milljónum króna í lok tímabils samanborið við 43.280 milljónir í lok síðasta árs. Eignir félagsins eru fyrst og fremst leiguíbúðir. Eigið fé félagsins nam 15.687 milljónum þann 30. júní og eiginfjárhlutfall 30,5%.

Í tilkynningu vegna uppgjörsins segir Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri félagsins:

"Það sem einkennir þetta árshlutauppgjör er sá mikli vöxtur sem hefur orðið á félaginu undanfarið en í lok síðasta árs sameinaðist félagið Ásabyggð sem var með ríflega 700 eignir á Suðurnesjum þannig að í lok júní 2017 var félagið með 1831 íbúð í rekstri. Það sem af er þessu ári hefur félagið fengið afhentar 200 nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem eru allar komnar í leigu. Uppbygging félagsins hefur gengið vel en félagið sem er í eigu fagfjárfestasjóðsins Heimavalla leigufélags slhf stefnir á skráningu í kauphöll á síðasta ársfjórðungi þessa árs."