Heildarvelta með hlutabréf á aðalmarkaði Kauphallarinnar nam 3,6 milljörðum króna í dag, og úrvalsvísitalan lækkaði um 0,93%. Helstu tíðindi voru tæp 8% lækkun Heimavalla í stökum 6 milljón króna viðskiptum í morgun, eftir að fallið var frá kaupum á rúmum fjórðungshlut í félaginu í gær.

Bréf Sýnar hækkuðu mest, um 2,53% í 544 milljón króna viðskiptum, sem einnig var næstmesta veltan. Þar næst komu bréf Eikar með 1,41% hækkun í 178 milljón króna viðskiptum, og loks Kvika með 1,01% hækkun í 638 milljón króna viðskiptum, sem var veltukóngur dagsins.

Á eftir Heimavöllum lækkuðu bréf Reita mest, um 1,67% í 293 milljóna króna viðskiptum. Þar á eftir komu bréf Marel með 1,38% lækkun í 160 milljóna viðskiptum.

Alls lækkuðu 11 af 19 félögum á aðalmarkaði í verði í dag, en 7 hækkuðu. Engin viðskipti voru með bréf HB Granda.