Gert er ráð fyrir að bréf með leigufélagið Heimavellir verði tekin til viðskipta í Kauphöll Íslands í lok maí samkvæmt kynningu vegna fyrirhugaðrar skráningar fyrirtækisins á markað.

Fyrir skráninguna fer fram útboð á rúmlega milljarðs króna hlutafé í Heimavöllum. Tilgangur útboðsins er meðal annars að fjölga hluthöfum í samræmi við reglur Kauphallar Íslands um lágmarksfjölda hluthafa.

Fyrirtækið stefnir einnig að lækkun fjármagnskostnaðar sem var 320 milljónum króna hærri en rekstrarhagnaður fyrirtækisins í fyrra. Heimavellir högnuðust um 2,7 milljarða króna á síðasta ári sem skýrist helst af 3.845 milljóna króna hækkun á virði fasteignasafns fyrirtækisins.

Vaxtaberandi skuldir fyrirtækisins um síðustu áramót námu 35 milljörðum króna. Í kynningu Heimavalla kemur fram að 0,1 prósentustiga meðallækkun vaxta muni lækka vaxtakostnað Heimavalla um 35 milljónir króna. Þá sé núverandi verðtryggð vaxtakjör Heimavalla um að meðaltali um 4,4% sem sé 0,7-0,9 prósentustigum hærri en ný fjármögnun fasteignafélaga á skuldabréfamarkaði. Þá muni grunnrekstur félagsins einnig batna á næstu árum með byggingu nýrra íbúða og sölu íbúða sem henti síður undir reksturinn samkvæmt afkomuspá Heimavalla sem sjá má hér að neðan.