Heimavellir er leigufélag sem býður upp á fjölbreytt úrval af leiguhúsnæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Félagið sérhæfir sig í langtímaleigu, en á heimasíðu Heimavalla kemur fram að fyrirtækið sé rekið í anda sambærilegra leigufélaga sem starfrækt hafa verið víða um Evrópu.

Leigutekjurnar margfaldast

Samkvæmt nýjustu afkomutilkynningu fyrirtækisins, námu leigutekjur Heimavalla um 1.495 milljónum árið 2016. Leigutekjurnar hafa tekið talsverðan kipp, enda hefur félagið stækkað gríðarlega á liðnu ári. Árið 2015 námu leigutekjurnar aðeins 512 milljónum króna.

Hagnaður í nýjum hæðum

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var því alls um 655 milljónir árið 2016, samanborið við 119 milljónir árið 2015. Hagnaður Heimavalla nam þá alls 2.217 milljónum króna, samanborið við 63 milljónir árið 2015.

Eignasafnið fjórfaldaðist

Eigið fé í árslok var 11.621 milljónir króna, samanborið við 1.089 milljónir króna árið 2015. Eiginfjárhlutfallið telst þó vera nokkuð hóflegt, en það hefur farið úr 10,5% upp í 26,7% milli ára.

Eignasafn Heimavalla hefur nær fjórfaldast milli ára og var um 42.930 milljónir árið 2016.

Undirbúa skráningu

Heimavellir hafa í þó nokkra mánuði verið orðaðir við Kauphöll Íslands, en samkvæmt tilkynningu Heimavalla er félagið að undirbúa sig fyrir skráningu sem fyrirhuguð er á síðasta ársfjórðungi þessa árs.

Í tilkynningunni, segir Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla:

"Rekstur Heimavalla var í takt við væntingar stjórnenda á árinu. Vel hefur gengið að stækka félagið og efnahag þess sem er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að skrá það á markaði síðar á þessu ári. Í árslok rak félagið 1.714 leiguíbúðir samanborið við 445 íbúðir í upphafi árs.

Félagið rekur leiguíbúðir í öllum landshlutum og tekur þátt í að byggja upp skilvirkan og sanngjarnan leigumarkað á viðkomandi stöðum með öryggi leigjenda að leiðarljósi. Helstu verkefni ársins er að hlúa að núverandi eignasafni félagsins auk þess sem félagið leggur áherslu á frekari stækkun á höfuðborgarsvæðinu og er að skoða ýmsa spennandi möguleika þar að lútandi.

Síðast en ekki síst er félagið að undirbúa sig fyrir skráningu í Kauphöll Íslands sem fyrirhuguð er á síðasta ársfjórðungi þessa árs. Stjórnendur vænta þess að leigutekjur ársins 2017 verði ríflega 3.000 m.kr. og að íbúðir í rekstri í árslok verði ríflega 2.000."