Heimdallur, félag ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, hefur lýst yfir vantrausti á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Albert Guðmundsson formaður félagsins sendi rétt í þessu.

Í tilkynningu félagsins segir að alvarleiki málsins sé slíkur að honum sé ekki sætt á stóli forsætisráðherra, og að ekki komi annað til greina en að hann segi af sér embætti - hann hafi þegar stórskaðað íslenska hagsmuni. Heimdallur mun því ekki styðja ríkisstjórn undir forsæti Sigmundar Davíðs.

Yfirlýsing Heimdallar vísar þá til Wintris Inc., fyrirtækis Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs. Fyrirtækið er skráð á hinum Bresku-Jómfrúareyjum og var meðal þeirra sem ljóstrað var upp um í hinum svokölluðu Panama-skjölum.

Þegar hafa Ung Vinstri græn og Ungir jafnaðarmenn lýst yfir vantrausti.

Aðspurður um afstöðu Heimdalls til mála Bjarna Ben og annarra sjálfstæðismanna sagði Albert Guðmundsson, formaður hreyfingarinna, að þau vilji gefa fulltrúum flokksins og borgarráðshópsins tækifæri til þess að gera nánar grein fyrir málum sínum áður en tekin verður bein afstaða til þeirra. Samt sem áður telur hreyfingin að samkvæmt þeim gögnum sem liggi fyrir þá sé mikill eðlis- og stigsmunur á málum sjálfstæðismanna og Sigmundar. Bjarni Ben nýtur því enn stuðnings Heimdalls.