Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup GÞ holding ehf. á Gámaþjónustunni ehf. því rannsókn eftirlitsins sýni að engin samþjöppun eigi sér stað á skilgreindum mörkuðum málsins í kjölfar samrunans.

Hins vegar hefur eftirlitið sett samrunanum skilyrði vegna aðkomu Arion banka að GÞ holding ehf. til að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði Gámaþjónustunnar gagnvart bankanum og keppinautum með mögulegt sameiginlegt eignarhald.

GÞ holding ehf. er í eigu annars vegar eignarhaldsfélagsins Barone I ehf., sem er aftur í eigu einkafjárfesta, og hins vegar er það í eigu SÍA III slhf. sem er framtakssjóður í rekstri sjóðstýringafyrirtækisins Stefnis ehf., sem er dótturfélag Arion banka.

Þessi skilyrði auk skilyrða um sjálfstæði Stefnis gagnvart Arion banka eiga að mati eftirlitsins að leysa þá samkeppnisbresti sem ella hefðu stafað af samrunanum.