Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra vill rýmka heimildir erlendra aðila til að fjárfesta í atvinnurekstri og samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum á þriðjudaginn þá tillögu hans að skipuð yrði nefnd til að fara yfir lagaumhverfið í þessum efnum. Nefndinni er ætlað að skila frumvarpsdrögum til ráðherra. "Ég held að mikill ávinningur felist í því að auka erlendar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi," segir ráðherra. "Á sama tíma þarf að skoða viðkvæma þætti eins og auðlindir okkar í hafi, fallvötnum og jörðinni. Grundvallaratriðið er að þær séu í þjóðareign þó svo nýtingarrétturinn sé í höndum einkaaðila."


Núgildandi lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri eru frá árinu 1991. Þau voru hins vegar sett við allt aðrar aðstæður en ríkja í dag. Ísland var til dæmis ekki orðið aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Viðskiptaráðherra segir að nefndinni verði meðal annars falið að fara yfir þessi lög og færa þau til nútímans. Í nefndinni verða fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna, Seðlabanka Íslands, utanríkis-, iðnaðar- og sjávarútvegsráðuneyta, Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífs. Samkvæmt erindisbréfi verður nefndinni meðal annars ætlað að vinna að því að einfalda takmarkanir á fjárfestingum erlendra aðila og skjóta styrkari stoðum undir lagaákvæði er lúta að söfnun og úrvinnslu upplýsinga um umfang erlendrar fjárfestingar í tölfræðilegum tilgangi.