*

fimmtudagur, 21. febrúar 2019
Innlent 20. ágúst 2018 15:19

Heimilin draga úr neyslu

Vísbendingar eru um að heimilin séu að draga úr neyslu sinni eftir að mikinn vöxt í einkaneyslu undanfarin misseri.

Ritstjórn
Íslandsbanki í Norðurturni.
Haraldur Guðjónsson

Vísbendingar eru um að heimilin séu að draga úr neyslu sinni eftir að mikill vöxtur hefur verið í einkaneyslu undanfarin misseri. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka. Nú er útlit fyrir að vöxtur einkaneyslu í ár verði sá hægasti síðan 2014.

Í júní síðastliðinn jókst greiðslukortavelta heimila um 5,3% að raungildi samkvæmt tölum frá Seðlabankanum. Þessi mikli vöxtur er alfarið tengdur greiðslukortaveltu íslendinga í útlöndum, en hún jókst um tæp 29% að raungildi meðan kortavelta innan lands dróst saman um hálfa prósentu. 

Nýskráningum bifreiða fækkaði um nærri 15% á fyrstu sjö mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra, endurspeglar það viðsnúning í einum stærsta neysluútgjaldalið heimilanna þó að hluta til megi skýra þessa fækkun nýskráninga á það að bílaleigur eru í meiri mæli farnar að minnka umsvif sín. 

Aðrir nýlegir hagvísar sem hafa allsterk tengsl við þróun einkaneyslu segja svipaða sögu og kortatölurnar. Væntingavísitala Gallup hefur lækkað jafnt og þétt síðustu ársfjórðunga og var meðalgildi hennar á öðrum fjórðungi ársins það lægsta í þrjú ár.