Það vakti töluverða athygli þegar Bill og Melinda Gates heimsóttu Friðheima í Biskupstungum árið 2015 sem og þegar Kardashian systurnar og Kanye West komu í heimsókn ári síðar. „Við fengum hellings athygli á þetta, sérstaklega þegar Kardashian hópurinn kom. Ég man að ég var margar vikur að svara fjölmiðlum í Hollywood. Það var rosalega gaman að hitta Bill Gates og fjölskyldu. Þau voru hérna ein í kvöldverð og voru ofboðslega áhugasöm. Kardashian voru svolítið öðruvísi en yndisleg líka. Þetta er allt bara fólk eins og við,“ segir Knútur Rafn Ármann Friðheimum. Hann segir þau hafa fengið ýmsa gesti í gegnum árin. Veitingaaðstaðan sé reglulega leigð út á kvöldin, fyrir ýmiskonar viðburði, allt frá fjölmennum veislum niður í tveggja manna borðhald.

Knútur segir að Friðheimar hafi lítið þurft að standa í því að auglýsa reksturinn á hefðbundinn hátt. „Við ætluðum ekkert að auglýsa heldur leyfa þessu að byggjast upp og að Friðheimar spyrðust út meðal fólks, og það er orðsporðsmarkaðssetning sem við höfum byggt á. Eins og til að búa til tækifæri fyrir fólk að taka myndir sem er svo dreift um allan heim og auglýsir starfsemina þannig. Við reiknuðum með að þetta myndi byggjast hægar upp. En okkar reynsla og saga sýnir hvað það getur verið ótrúlega sterk markaðssetning að láta hlutina spyrjast út ef maður hefur frumlega og góða hugmynd byggða á gæðum.“

Þá bjuggu þau til vörulínu í samstarfi við Matís sem samanstendur af sultum, sósum, drykkjum og fleiri vörum þar sem afgangstómatar eru nýttir. „Okkur finnst gaman að geta boðið gestum að taka bragðið með sér heim. Þetta er verkefni sem mér hefur þótt rosalega vænt um. Við opnuðum vefverslun fyrir fjórum árum og erum núna að sendamatarminjagripi   um allan heim, á eftir okkar gestum, jafnvel aftur og aftur. Í ferðaþjónustu erum við að reyna að búa til minningar og því lengur sem þær vara þeim mun betur finnst manni hafa tekist. Manni finnst rosalega gaman að pakka niður í kassa vitandi að gestirnir munu opna kassann og segja: „Manst þú þegar við vorum á Íslandi, það var svo gaman“,“ segir Knútur.

Nánar er rætt við Knút í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .