Haraldur Þórðarson hefur starfað sem framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækisins Fossa markaða hf. frá stofnun þess á síðasta ári. Á skömmum tíma hefur fé­lagið náð að skapa sér sess á íslenskum fjármálamarkaði sem einn af helstu þjónustuaðilum fyrir innlenda og al­ þjóðlega fagfjárfesta. Haraldur segir að framundan séu mikilvæg tímamót þar sem heimurinn muni opnast innlendum fjárfestum þegar fjármagnshöftum verður aflétt. Jafnframt telur hann jákvætt að erlendir fjárfestar sýni Íslandi áhuga.

Haftaafnám mjög spennandi þróun

Afnám hafta mun opna nýjar víddir fyrir innlenda fjárfesta. Það hlýtur að vera spennandi fyrir ykkur að geta tekið þátt í því?

„Ég held að áhugaverðasta þróunin á þessu ári sé sú að heimurinn er loksins að opnast gagnvart innlendum fjárfestum. Það er ný staða fyrir innlenda fjárfesta sem hafa nánast eingöngu getað fjárfest í innlendum eignum að geta fljótlega leitað út fyrir landsteinana og náð þannig fram áhættudreifingu í fjárfestingum sínum. Þetta stækkar mengi fjárfestingakostanna sem þeir hafa og er mjög spennandi þróun fyrir markaðinn. Við höfum um nokkurt skeið búið okkur undir þessar breytingar og við réðum meðal annars til okkar starfsmann nýlega sem hefur mikla reynslu af viðskiptum á erlendum mörkuðum. Fjárfestingar í alþjóð­ legu samhengi eru því orðnar hluti af kjarnahæfi okkar hjá Fossum og verða vaxandi þáttur í okkar starfsemi á næstu misserum."

Einhverjir hafa lýst yfir áhyggjum af því að innan hafta muni innlend þekking á erlendum mörkuðum glatast. Þurfum við að hafa áhyggjur af því?

„Ef fáir hafa verið að einblína á fjárfestingarkosti erlendis glatast þessi þekking eðli málsins samkvæmt smám saman með árunum. Þá er einmitt gott að geta leitað til aðila sem hafa mikla reynslu af starfsemi á erlendum mörkuðum á meðan þessi þekking byggist aftur upp meðal innlendra fjárfesta. Þess vegna munum við leggja upp úr því hér að vera með mjög reynslumikið starfsfólk á þessu sviði sem getur aðstoðað innlenda fjárfesta á þessum breytingatímum. Þekking getur glatast en hún getur áunnist aftur.“

Býst ekki við flótta af markaðnum

Hver telurðu að áhrif haftaafnáms verði á hlutabréfamarkað? Er hann staddur í bólu vegna þess að fjármunir eru fastir hérna?

„Ég held að eignaverð á Íslandi sé tiltölulega sambærilegt því sem gerist annars staðar og hef því ekki miklar áhyggjur af því að það verði einhver flótti af markaðnum vegna bólumyndunar. Hins vegar hafa lífeyrissjóðir verið mjög atkvæðamiklir á þessum lokaða innlenda markaði undanfarin ár. Þeir hafa núna rýmri heimildir til að fjárfesta erlendis og hafa ákveðna uppsafnaða þörf til þess að beina fjármagni út fyrir landsteinana. Ég held því að samsetning aðila sem eru virkastir á hlutabréfamarkaðnum heima muni breytast og að aðrir innlendir fjárfestar muni verða atkvæðameiri á komandi misserum. Heldurðu að erlendir aðilar sem fyrst og fremst hafa einblínt á skuldabréf gætu farið að hasla sér völl á hlutabréfamarkaði einnig? „Það eru einhver merki um það nú þegar og við höfum séð á hluthafalistum skráðra félaga að það hafa verið að koma inn nöfn erlendra fjárfesta. Ég gæti alveg trúað því að sú þróun myndi halda áfram þó það gerist kannski ekki mjög hratt. En hlutfall eigna erlendra aðila í skráðum félögum er mjög lágt samanborið við það sem gengur og gerist annars staðar og það er mikið rými til hækkunar þar. Ég vona og á von á því að það verði þróunin þegar hagkerfið opnast.“