Tekjur hollenska bjórframleiðandans Heineken jukust um 7.5% á þriðja ársfjórðungi. Fyrirtækið telur hlýtt veður í Evrópu þetta sumarið hafa orsakað þessa aukningu. Á sama tíma hefur sala dregist saman í Rússlandi.

Fyrirtækið hefur hagnast um 2 milljarða bandaríkjadala eða því sem um nemur 256 milljarða íslenskra króna á þessum 9 mánuðum sem liðnir eru af árinu, þegar gengisflökt og annar kostnaður er dreginn frá. Einnig græddi Heineken 375 milljónir evra á lægri skattgreiðslum eftir að hafa breytt um pakkningakerfi utan um bjórinn.

Gengi bréfa Heineken hefur hækkað um rúm 3% eftir að fjórðungsskýrslan var birt, en það hefur ekki verið svo hátt síðustu fimm ár. Fyrirtækið hefur eytt hundruðum milljóna evra í að kaupa í eigin hlutabréfum.