*

föstudagur, 20. október 2017
Erlent 20. ágúst 2012 08:20

Heineken við það að taka yfir framleiðanda Tiger

Heineken er tilbúið að borga um 780 milljarða til að komast yfir allt hlutafé í félaginu.

Ritstjórn

Bjórframleiðandinn Heineken hefur samþykkt að greiða 5,6 milljarða Singapore dollara, sem samsvarar um 540 milljörðum íslenskra króna, fyrir 40% hlut Asia Pacific Investment Pte Ltd (APIPL). Um er að ræða eignarhaldsfélag utan um Asia Pacific Breweries (APB) sem meðal annars framleiðir bjórinn Tiger og er leiðandi í sölu á bjór í Asíu. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið. Hluthafar Fraser and Neave sem eru núverandi eigendur, eiga þó eftir að samþykkja tilboð Heineken.

Ef tilboð Heineken verður einnig samþykkt af hluthöfum Fraser and Neave þá mun Heineken eiga um 81.6% hlut í ATB og yfirtökuskylda myndast. Það mun kosta Heineken um 2,5 milljarða Singapore dollara, um 241 milljarð íslenskra króna, að taka yfir þá hluti sem eftir standa.

Þess má geta að í þessu felst að Fraser and Neave hafa nú ekki leyfi til að fara í viðræðu fyrir aðra um hlut sinn í ATB. Með þessu er verið að koma í veg fyrir að Tælenski milljarðamæringurinn Charoen Sirivadhanabhakdi komist yfir hlutinn í fyrirtækinu. Hann hafði áður boðið í minni hlut í APB.

Charoen á ráðandi hlut í Thai Beverage sem er næst stærsti bjórframleiðandi í Asíu. Thai Beverages er reyndar einnig stærsti einstaki hluthafi Fraser and Neave með 26,4% hlut og verður því spennandi að sjá hvernig atkvæði falla á komandi hluthafafundi um tilboð Heineken.