Nú er farið að styttast í að síðasta haftið í Héðinsfjarðargöngum verði sprengt. Í lok síðustu viku átti einungis eftir að sprengja 361 metra af 10,6 kílómetra heildarlengd ganganna. Miðað við eðlilegan gang hjá bormönnum er líklegt að hægt verði að sprengja í gegn í kringum 25. mars, en trúlega í síðasta lagi í byrjun apríl.

Gröftur Héðinsfjarðarganga frá Ólafsfirði til Héðinsfjarðar gekk mjög vel í síðustu viku (viku 09). Í þeim legg voru þá sprengdir 65 metrar og er heildarlengd ganga þeim megin frá orðin 4.674 metrar. Samtals var búið að sprengja 10.209 metra eða 96,6% af heildarlengd í síðustu viku voru þá eftir 361 metri. Unnið var við endanlegar styrkingar í gangaleggnum frá Héðinsfirði til Ólafsfjarðar og því ekkert sprengt þeim megin.