Hjördís María Ólafsdóttir hefur verið ráðin markaðsstjóri HEKLU bílaumboðs. Hún tekur við starfinu af Rúnari Hreinssyni sem gegnt hefur starfinu um árabil en hverfur nú til annarra starfa innan HEKLU. Hjördís mun leiða markaðsmál HEKLU og bera ábyrgð á markaðssókn allra vörumerkja fyrirtækisins sem og Volkswagen, Skoda, Audi og Mitsubishi á Íslandi.

Áður en hún réði sig til HEKLU, starfaði Hjördís María sem framkvæmdastjóri útflutningsmála hjá Cintamani, hvaðan hún kom frá ArcticGroup í Þýskalandi. Hún hefur reynslu úr íslenskum markaðsheimi þar sem hún starfaði ennfremur um árabil hjá 66°Norður og Meet in Reykjavík.

Hjördís María er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og er með B.Sc. gráðu í ferðamálafræði frá sama skóla. Þá er hún með MBA gráðu frá WHU-Otto Beisheim School of Management í Þýskalandi. „Þetta er afar spennandi staða hjá rótgrónu fyrirtæki sem enn er í stórsókn á íslenskum bílamarkaði,“ segir Hjördís María.

„Áhersla HEKLU á vistvænar bifreiðar undanfarin ár sem skilað hefur því að HEKLA er leiðandi á þessum markaði, sýndi framsýni og umhyggju fyrir náttúrunni og ég er stolt af því að að verða nú hluti af þessari öflugu liðsheild.“ Eiginmaður Hjördísar Maríu er Bjarki Björnsson, forstöðumaður fjárstýringar hjá Marel og eiga þau tvö börn; Viktoríu Dagnýju 8 ára og Óla Björn 6 ára.