Helgi Anton Eiríksson hefur verið ráðinn forstjóri Iceland Seafood International og Benedikt Sveinsson, fyrrum forstjóri, hefur tekið við stöðu stjórnarformanns félagsins. Þá hefur verið gengið formlega frá kaupum International Seafood Holdings á meirihluta í Iceland Seafood International.

Tilkynnt var síðastliðið haust um kaup Bretans Mark Holyoake á hlut Kjalars, sem var í eigu Ólafs Ólafssonar, á stærstum hluta í Iceland Seafood. Nú hefur verið gengið frá þessum kaupum. Félag Holyoakefer með 73% eignarhlut og Benedikt Sveinsson, fráfarandi forstjóri og núverandi stjórnarformaður fyrirtækisins og Bjarni Benediktsson, framkvæmdastjóri Iceland Seafood á Íslandi eiga afganginn.

Átta dótturfyrirtæki

Iceland Seafood International á átta dótturfyrirtæki í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu.

,,Þessi fyrirtæki hafa hvert sína sérstöðu og styrkleika en saman mynda þau gríðarlega sterka heild í nafni Iceland Seafood,” segir Helgi Anton í skriflegu svari til Viðskiptablaðsins. „Fjárhagslegur styrkur okkar, fjárfestingar í meðal annars öflugu fólki, góðir markaðir og verkferlar gefa framleiðendum frábært tækifæri á næstu mánuðum og árum. Iceland Seafood er einn öflugasti dreifingaraðilinn á alþjóðlegum markaði fyrir hvítfisk og aðrar tegundir sem veiðast í Norður-Atlantshafi. Markmiðið er að byggja enn frekar á þessum styrkleika, bæta nýjum mörkuðum við netið okkar og verða enn sterkari innan þessa geira sjávarútvegsins. Við trúum á hefðbundin gildi eins og samstarf, gæði og áreiðanleika. Þessi nálgun hefur reynst vel til þessa og við munum byggja á henni áfram.“

Aukin tækifæri á Íslandi

Helgi Anton tekur fram í svari sínu að Íslendingar eigi góð tækifæri á að auka hlutdeild sína í framleiðslu á sjávarafurðum.  „Iceland Seafood hefur þá sérstöðu að dreifa fjölbreyttum tegundum sjávarafurða, ferskum, frosnum og söltuðum og fyrirtækið þekkir því vel til allra aðstæðna. Við seljum sjávarafurðir í neytendapakkningum til margra stærstu smásala í Evrópu Hluti þessarar vöru er framleiddur á Íslandi og ég er þess fullviss að það er mikið svigrúm til þess að auka hlut landsins í náinni framtíð.  Gengisþróunin hefur gert okkur betur samkeppnisfær í framleiðslukostnaði og þegar við bætist að íslenskir framleiðendur eru í fararbroddi hvað varðar gæði og nýsköpun, þá liggur í augum uppi að möguleikarnir eru mjög góðir.“ Samkvæt tilkynningu á Helgi Anton langan feril að baki í sölu og markaðssetningu á sjávarafurðum.  Hann starfaði lengi hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, jafnt á Íslandi sem í Bretlandi, en hann var framkvæmdastjóri hjá Coldwater Seafood í Bretlandi frá 1995. Á árunum 2004-2008 starfaði Helgi Anton hjá Íslandsbanka þar sem hann stýrði m.a. alþjóðlegri starfsemi bankans í sjávarútvegi.

Hann kveðst hlakka til þess að leiða þann frábæra hóp sem starfsfólk Iceland Seafood er.  Þá leggur hann áherslu á að Iceland Seafood muni áfram njóta krafta Benedikts Sveinssonar, fráfarandi forstjóra, sem nú er stjórnarformaður félagsins. ,,Benedikt á að baki nærri 35 ára starfsferil við sölu og vinnslu sjávarafurða, lengst af sem forstjóri Iceland Seafood International og dótturfélaga þess í Bretlandi og Bandaríkjunum og það er mikilvægt fyrir félagið að hafa hann áfram í forystu,“ segir Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood.