Mun meiri stuðningur er við það að Helgi Hrafn Gunnarsson verði forsætisráðherra að loknum næstu þingkosningum en að Birgitta Jónsdóttir leiði ríkisstjórnina. Kemur þetta fram í könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið.

Viðskiptablaðið lét kanna afstöðu fólks til þeirra tveggja einstaklinga sem líklegastir verður að telja að verði forsætisráðherraefni Pírata í næstu kosningum. Ef marka má kannanir verður vart hægt að mynda tveggja flokka stjórn án Pírata, en ítrekað hafa komið upp á yfirborðið deilur innan flokksins, sem af mörgum hafa verið túlkaðar sem átök milli Helga Hrafns og Birgittu.

Fjallað er um könnunina í Viðskiptablaðinu, sem kemur út á morgun, en þar kemur m.a. fram að 18,2% svarenda eru jákvæðir gagnvart Birgittu sem forsætisráðherra, en 64,7% neikvæðir. Aftur á móti eru 28,9% jákvæðir gagnvart Helga Hrafni sem forsætisráðherra en 51,8% neikvæðir.