Á fyrri helmingi ársins voru nýskráðar 92 hópbifreiðar, eða rútur, en á sama tíma í fyrra voru þær 183. Það þýðir rétt um 50% samdráttur á milli ára að því er Morgunblaðið segir frá.

Nefndarmaður í hópbfifreiðanefnd Samtaka ferðaþjónustunnar, Gunnar M. Guðmundsson framkvæmdastjóri SBA-Norðurleiðar gerir ekki ráð fyrir miklum innflutningi á rútum til viðbótar á næstu árum. Hann segir jafnframt mikið um afbókanir, sérstaklega frá Evrópu.

„Menn eru að bremsa í þeim efnum,“ segir Gunnar sem segir markaðinn vera mettaðan eftir mikinn innflutning síðustu ára.
„Það er alveg ljóst, því afkoman er svo hræðilega léleg hjá mörgum félögum út af genginu. Það hefur ekki allt að segja að það sé mikið að gera, það þarf að vera einhver afkoma svo hægt sé að kaupa rúturnar.“

Milli 2015 og 2017 voru nýskráðar 643 rútur hér á landi, langflestar eða 535 þeirra á fyrri hluta ársins. Það samsvarar um 83% allra hópbifreiðanna. Langflestar voru nýskráðar á fyrri helmingi ársins 2016, eða 230 þeirra.

Gunnar segir það rétt mat að rútufyrirtækin hafi vaxið of hratt og séu að upplifa vaxtarverki nú þegar dregið hafi úr aukningunni. „Það er ekki endilega raunin hjá stærstu félögunum,“ segir Gunnar sem segir þetta líklega helst bitna á þeim minni. „Það voru bara svo mörg félög sem komu ný inn á þennan markað þegar uppsveiflan stóð sem hæst.“