Auglýsingatekjur íslenskra fjölmiðla árið 2015 voru helmingi minni en árið 2007, þegar þær voru hæstar að raunvirði. Námu þær tæplega 12 milljörðum króna árið 2015 að því er Hagstofan greinir frá, en árið 2007 námu þær 11.440 milljónum króna en ef horft er til verðþróunar voru tekjurnar árið 2015 53% lægri en þegar þær voru hæstar.

Námu tekjurnar árið 2015 nálega þeim sömu og árið 2000, reiknað á raunvirði. Mikill samdráttur var á auglýsingatekjum fjölmiðla hér á landi í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008, eða um 27%, reiknað á verðlagi hvers árs.

Reiknað í raunvirði, miðað við verðlag ársins 2015 féllu auglýsingatekjurnar um 68% á milli áranna 2007 og 2009, en síðan árið 2010 hafa þær síðan aukist á ný jafnt og þétt mælt í breytilegu verðlagi og eru þær í krónutölum ívið hærri árið 2015 en árið 2007.

Svipaða sögu er að segja frá hinum Norðurlöndunum, þar sem samdráttur á árabilinu 2008 til 2015 í auglýsingatekjum á föstu verðlagi, miðað við árið 2008 nemur um 22% Í Danmörku, 25% í Finnlandi, 15% í Noregi og 4% í Svíþjóð. Sambærileg tala fyrir Ísland er samdráttur upp á 23%.

Helmingur til prentmiðla

Hátt í önnur hver króna sem greidd var fyrir birtingu og flutning auglýsinga í íslenskum fjölmiðlum árið 2015 rann til prentmiðla, það er fréttablaða og tímarita. Fréttablöð, þá dagblöð og vikublöð voru mikilvægasti auglýsingamiðillinn, en 43 prósent auglýsingatekna fjölmiðla féll þeim í skaut.

Sjónvarp kom næst að mikilvægi. Það var þó ekki nema hálfdrættingur á við fréttablöðin, með um 21 prósenta hlut. Því næst kom hljóðvarp með ríflega 15 prósent og vefmiðlar með 13 prósent. Hlutdeild annarra miðla í auglýsingatekjum var talsvert lægri, en sex af hundraði teknanna féllu til tímarita og til blaða sem gefin eru út sjaldnar en vikulega og tæp tvö prósent runnu til kvikmyndahúsa sem og til útgáfu og dreifingu mynddiska.

Þó hlutfall prentmiðla hafi fallið úr 60% niður í 49% frá árinu 1996, þá er hlutdeild fréttablaða og hljóðvarps hærra hér á landi en víðast gerist.

Hlutur vefmiðla er rýr

Á sama tíma sker Ísland sig úr frá hinum norrænu ríkjunum í því hve rýr hlutur vefmiðla er í auglýsingatekjunum, meðan hlutdeild fréttablaða í auglýsingatekjum er með því hæsta í sem gerist bæði hér á landi ásamt Finnlandi. Hljóðvarp tekur hins vegar hvergi til sín hærra hlutfall af auglýsingatekjum fjölmiðla en hér á landi.

Heildarhlutfall auglýsingatekna af vergri landsframleiðslu hefur lækkað frá því á árunum fyrir hrun, en árin 1996 til 2008 var það að jafnaði um 0,8%, en árið 2015 var hlutfallið komið niður í 0,5%.

Víðast hvar á Vesturlöndum hafa auglýsingatekjur fjölmiðla hins vegar verið í kringum 1% af vergri landsframleiðslu um langt hríð.