Fylgi Samfylkingarinnar minnkar um rúmlega tvö prósentustig milli mánaða, en 17% segjast myndu kjósa flokkinn ef kosið yrði til Alþingis í dag samkvæmt nýjum ÞJóðarpúlsi Gallup.

Breytingar á fylgi annarra framboða eru á bilinu 0,2-1,2 prósentustig og eru ekki tölfræðilega marktækar en könnunin var gerð dagana 2. til 31. október en 54,8% af þeim 6.129 sem voru í úrtakinu tóku þátt.

Tæplega 26% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, nær 11% Viðreisn, tæplega 11% Pírata og sama hlutfall Vinstri græn. Rúmlega 10% segjast myndu kjósa Miðflokkinn, rúmlega 7% Framsóknarflokkinn, ríflega 6% Flokk fólksins, rösklega 1% segist myndi kjósa aðra flokka og þar af liðlega 1% Sósíalistaflokk Íslands.

Næstum 9% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag og tæplega 10% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp. Fylgi við ríkisstjórnina eykst um prósentustig milli mánaða, en nær helmingur þeirra sem taka afstöðu segjast styðja hana. Stuðningurinn hefur þó minnkað úr 71% skömmu eftir að hún tók við í janúar síðastliðnum.