Ef stofnbrautir inn og út úr borginni yrðu tvöfaldaðar samkvæmt áætlunum starfshóps samgönguráðherra væri tæplega helmingur þjóðarinnar, eða 44% tilbúin að greiða veggjöld en meirihlutinn, 56% er á móti. Á sama tíma eru vegatollar í Hvalfjarðargöngum, stefnt að þeim í Vaðlaheiðargöngum á norðurlandi og mögulega í Dýrafjarðargöngum á Vestfjörðum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um lét Jón Gunnarsson samgönguráðherra starfshóp koma með tillögur að uppbyggingu helstu stofnbrauta milli Reykjavíkur, Keflavíkur, austur fyrir Selfoss og upp í Borgarnes. Starfshópurinn velti upp mismunandi fjármögnunarleiðum, þar með talið að setja upp veggjald líkt og í Hvalfjarðargöngum, líklega borgað rafrænt.

Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis en þar segir að 38% séu tilbúin að greiða veggjöld, 48% segjast ekki tilbúin til þess, og 14% eru óákveðin eða vilja ekki svara. Séu svörin skoðuð eftir því eingöngu hverjir taka afstöðu eru 56% á móti en 44 með uppbyggingu stofnveganna í kringum borgina með þessum hætti.

Jón Gunnarsson hefur sagt að ekki sé hægt að byggja upp stofnbrautirnar samkvæmt bestu stöðlum nema á löngum tíma án hjálpar einkafjármögnunar og vegatolla. En með fjármagni einkaaðila, sem mikill áhugi virðist vera á hjá að taka þátt í innviðauppbyggingu hérlendis, væri hægt að fá ferðamenn til að taka þátt í kostnaðinum við að byggja upp vegakerfið sem skattborgarar hafa þurft að greiða fyrir hingað til.

Valgerður Gunnarsdóttir formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis segir Íslendinga ekki einu þjóðina sem hefur velt upp þessari lausn og nefnir Noreg og Frakkland sem dæmi. „Við erum með Hvalfjarðargöngin, þar sem er gjaldtaka, Vaðlaheiðargöngin þar sem verður gjaldtaka, við erum með Dýrafjarðargöngin, mögulega með gjaldtöku,“ segir Valgerður en hún telur fyrst og fremst sunnlendinga vera á móti.

„Ef þetta flýtir fyrir því að við fáum betri vegi og öruggari vegi er þetta ekki spurning í mínum huga.“ Valgerður segir forsendur verkefnisins sýna að ekki verði um háar fjárhæðir að ræða og afsláttarkjör verði fyrir þá sem keyra daglega.