Aðeins um helmingur þeirra 50 milljón evra sem söfnuðust í skuldabréfaútboði Wow air í haust voru nýtt fjármagn, samkvæmt frétt Fréttablaðsins í morgun . Hinn helmingurinn er sögð hafa verið skuldbreyting á skammtímaskuldum í skuldabréf.

Wow air fór sem kunnugt er í gjaldþrot síðastliðinn fimmtudag eftir að leigusalar félagsins kyrrsettu vélar þess í Bandaríkjunum, en viðræður stóðu þá yfir við fjárfesta um að leggja félaginu til aukið fjármagn, og eru sagðar hafa gengið vel.

Samkvæmt heimildum Markaðarins, Viðskiptarits Fréttablaðsins, breyttu þrír leigusalar Wow ógreiddum leigugreiðslum upp á háar fjárhæðir í skuldabréf í útboði félagsins í september. Auk þeirra hafi Öryggismiðstöðin og fleiri félög farið sömu leið með ógreiddar kröfur.

Áður hafði komið fram, eftir að útboðinu lauk, að Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri Wow, hafi sjálfur fjárfest fyrir 5,5 milljónir evra, um 750 milljónir króna, í útboðinu.

Fyrir skuldabréfaútboðið sagði Skúli að það ætti að tryggja fjármögnun félagsins næstu 18 mánuðina. Ekki voru hinsvegar liðnir tveir mánuðir þegar félagið leitaði til síns helsta keppinautar, Icelandair, um að taka það yfir vegna erfiðrar lausafjárstöðu, sem sögð var skýrast af krefjandi ytri aðstæðum á flugmarkaði.