Meirihluti landsmanna, eða 52% segja mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili að því er fram kemur í nýrri skoðanakönnun MMR sem framkvæmt var 18. til 22. október síðastliðinn. Er það fækkun um 4% frá því í september fyrir ári síðan, en hlutfall þeirra sem vilja breytingar á stjórnarskránni hækkar með aldri.

Þannig telja 41% þeirra sem eru 68 ára og eldri mjög mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá en einungis 28% þeirra sem eru á aldrinum 18 til 29 ára. Í heildina telja 34% aðspurðra það mjög mikilvægt, sem er aukning um 2 prósentustig frá því fyrir ári.

Á sama tíma fjölgar þeim sem telja það mjög lítilvægt um fjögur prósentustig, eða úr 14 í 18%, sem og þeim fjölgar sem telja það frekar lítilvægt úr 9 í 11%. Á sama tíma fækkaði þeim um fimm prósentustig sem finnst það frekar mikilvægt eða úr 23 í 18%. Þeim sem er sama fækkar svo um 1 prósentustig, úr 20 í 19%.

Konur og borgarbúar hlynntari breytingum

Konur eru líklegri til að segja mikilvægt að endurskoða stjórnarskrána, eða 56% á móti 49% karla, sem og íbúar höfuðborgarsvæðisins eru líklegri til þess, eða 56% þeirra á móti 48% íbúa landsbyggðarinnar.

Ekki kemur fram hvaða breytingar fólk vilji sjá á stjórnarskránni en samt sem áður eru flestir stuðningsmenn Pírata, eða 90% hlynntir stjórnarskrárbreytingum, 85% stuðningsmanna Flokks fólksins og 83% stuðningsmanna Samfylkingar sem telja mikilvægast að stjórnarskránni sé breytt.

Flestir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, eða 66%, Miðflokksins, eða 60% og Framsóknarflokksins, eða 41% eru líklegir til að telja stjórnarskrárbreytingar lítilvægar.

Þó núverandi stjórnarskrá hafi verið tekin upp við lýðveldisstofnun 1944, er hún í grunninn, með breytingum, byggð á stjórnarskránni frá 1874, en núverandi uppbygging hennar er að meginefni frá því Ísland endurheimti fullveldi sitt 1. desember 1918.

Víða um land hefur verið haldið upp á aldarafmæli þess, m.a. við stjórnarráðið fyrir rúmri viku, en ekki eru mörg önnur ríki sem geta státað af eldri samfelldum stjórnarskrám, en nefna má stöðug lýðræðisríki eins og Bandaríkin og Noreg þar á meðal.