Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air segir að unnið sé að því að WOW air verði áfram rekið sem sjálfstætt félag og býst hann við að geta fært starfsfólki gleðifréttir bráðlega. Þetta kemur fram í tölvupósti sem Skúli senti á starfsfólk í morgun.

„Eins og þið vitið þá höfum við unnið mjög náið með Icelandair síðan 5. nóvember en samhliða leitað annarra fjárfesta. Nú höfum við komist að sameiginlegri ákvörðun að hætta viðræðum við Icelandair og ég óska þeim hins besta,“ segir Skúli.

„Að því sögðu er það ekkert leyndarmál að ég hef þá ástríðu og hjarta mitt brennur fyrir að tryggja að WOW air verði áfram sjálfstætt flugfélag og það er nákvæmlega það sem við erum að vinna að og ég reikna með að geta fært ykkur fleiri gleðifréttir hvað það varðar í náinni framtíð.“

Skúli segist áfram leggja áherslu á mikilvægi þess að einbeita sér að settu markmiði.

„Þið hafið öll staðið ykkur frábærlega á þessum erfiðu tímum,“ segir Skúli og segir starfsfólk geta verið stolt af nýlegri viðurkenning CAPA fyrir að hafa verið besta lággjaldaflugfélagið árið 2018.