Nánustu ráðgjafar breska forsætisráðherrans Theresu May, Nick Timothy og Fiona Hill, hafa sagt starfi sínu lausu í kjölfar þess afhroðs sem flokkurinn beið í þingkosningum Bretlands í vikunni. BBC greinir frá .

Samkvæmt heimildum BBC var Theresa May hvött til að reka ráðgjafa sína ef hún átti að halda trúverðugleika sínum sem leiðtogi. Timothy sagði að hann ætti sinn hlut í stefnuskrá Íhaldsflokksins, sem var gagnrýnd af mörgum þingmönnum.

May hefur greint frá því að hún ætli að vera áfram forsætisráðherra þrátt fyrir að Íhaldsflokkurinn hafi tapað meirihluta sínum. Hún sækist eftir stuðningi norður-írska demókrataflokksins til að mynda ríkisstjórn.

Timothy sagði að mikil fylgisaukning Verkamannaflokksins, sem bætti við sig fjölda þingmanna, hafi komið sér á óvart.