Glerborg er bæði framleiðslu- og innflutningsfyrirtæki, en eins og nafnið gefur til kynna sérhæfir það sig í framleiðslu og innflutningi á gleri, en einnig gluggum, en fyrirtækið flytur inn timbur-, ál- og plastglugga frá Evrópu.

Framkvæmdastjóri með klukkustundar fyrirvara

Rúnar Árnason, framkvæmdastjóri Glerborgar, segir ævintýrið hafa í raun byrjað árið 2010. „Í kjölfar kreppunnar fór fyrirtækið Glerslípun & speglagerð í sölumeðferð hjá Arion banka. Erlend lán sem hvíldu á rekstrinum höfðu margfaldast og var föður mínum boðið að kaupa fyrirtækið á góðu verði. Við ákváðum að kaupa og ætluðum að halda rekstrinum í óbreyttri mynd, halda sama framkvæmdastjóra og veita rekstrinum aðhald og reyna þannig að láta reksturinn ganga upp.

Eftir að við vorum búnir að grípa tækifærið ákváðum við hins vegar að segja framkvæmdastjóranum upp. Með engum fyrirvara var ákveðið að ég myndi fara niður í Vatnagarða og taka við stöðunni. Klukkutíma síðar var ég mættur á fund með starfsmönnum. Síðan var bara að setjast í stólinn og átta sig á verkefninu. Ég byrjaði á því að setjast við tölvu fyrrverandi framkvæmdastjóra, las tölvupósta um reksturinn og skoðaði hvernig þetta gekk allt fyrir sig. Ég var nokkuð fljótur að tileinka mér starfið enda snýst fyrirtækjarekstur öðru fremur um samskipti við fólk. Þótt ég hafi tekið við var reksturinn eins og áður.

Allir starfsmenn Glerslípunar & speglagerðar voru enn hjá fyrirtækinu og þeir vissu hvernig allur daglegur rekstur gekk fyrir sig. Með þeirra hjálp gengu umskiptin bara ótrúlega vel og var í raun minna mál en ég hélt í fyrstu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð